Hvað er Edrúar?
Á hverju ári stendur Akkúrat fyrir Edrúar áskorun sem er ætlað að beina athygli fólks að kostum þess að breyta venjum með áfengislausum valkostum, úrvali áfengislausra drykkja sem eru í boði og beina kastljósinu að veitingahúsum, börum, verslunum, hótelum og fyrirtækjum sem eru að gera vel í því að bjóða gestum sínum upp á vandaða áfengislausa valkosti.
Edrúar áskorunin fer stækkandi með hverju árinu. Fyrsta árið fór rólega af stað en árið eftir, 2022, eru nú þegar hátt í 2.000 einstaklingar sem ætla að taka áskoruninni um áfengislausan febrúar.
Markmiðið með Edrúar er þríþætt:
#1 Efla góðar venjur
Besti tíminn til að breyta venjum er fyrir 5 árum síðan. Næst besti tíminn er í dag. Með Edrúar viljum við hvetja fólk til þess að skoða samband sitt við áfengi og vekja athygli á kostum þess að taka sér áfengislaus tímabil eða minnka neyslu áfengis. Með því að taka 28 daga áskorun um að sleppa áfengi eru þáttakendur að gefa sér tækifæri til að upplifa hvort og hvernig áfengisdrykkja hefur áhrif á daglegt líf og flæði. Nokkrir litlir sigrar sem þáttakendur gætu upplifað í Edrúar eru; betri svefn, meiri orka, betra flæði, meiri fókus, minni kvíði, sjaldnar höfuðverkur, meltingin betri, meiri raki í húðinni og ánægjulegri fjölskyldustundir. Vonandi er eitthvað á þessum 28 dögum sem þáttakendur upplifa sem tilvalið að taka með þér inn í restina af árinu.
#2 Fjölga valkostunum
Það þarf ekki að vera leiðinlegt að sleppa áfengi. Það er svo stutt síðan að einu valkostir fólks sem valdi án áfengis voru útþynntur bjór, appelsínusafi með grenadine sýrópi eða sykurmikið og skrautlegt barnakampavín. Núna hins vegar þegar valkostunum fer fjölgandi er hægt að skála í freyðivín eða freyðite sem er alveg jafn fallegt í kampavínsglasinu og áfengu valkostirnir, blanda sér sinn uppáhaldskokteil, kaupa fleiri en eina góða tegund af hvítvíni eða prufa einhverja af ótal mörgu drykkjum sem standa fólki til boða í dag sem eru bæði vandaðir, sykurlitlir og fullkomnir í stað áfengis. Oft er það erfiðasta við að standast Edrúaráskorunina að svara spurningunni „Af hverju ertu ekki að drekka?“. Þó að það sé enginn sem skuldi neinum að drekka áfengi er það oft skemmtilegra fyrir alla að geta valið sér vandaða áfengislausa drykki hvort sem fólk er statt í matarboði, á veitingahúsi eða í veislu. Þá er enginn að hugsa um hvað er í glasinu.
#3 Klappa fyrir veitingastöðum sem eru að standa sig vel
Það er allra hagur fyrir veitingahús, bari, hótel og veisluhaldara að bjóða upp á gott úrval af áfengislausum drykkjum, og hafa það úrval sýnilegt á drykkjarseðli. (helst ekki neðst) Við sjáum það aftur og aftur að þegar samstarfsaðilar okkar leggja metnað í að bjóða gestum sínum upp á flotta áfengislausa drykki skilar það sér í meiri tekjum og ánægðari gestum. Það má gera ráð fyrir því að á hverju kvöldi séu allt að 25% af gestunum ekki að drekka vín. Í stað þess að taka vínglasið og bjóða þeim upp á sódavatn hafa vínveitingastaðir áttað sig á því að það er margfalt betri leið að bjóða upp á aðgengilega áfengislausa drykki, bæði vín, bjóra og kokteila. Build it and they will come. Á Íslandi eru margir staðir sem leggja mikið upp úr áfengislausa úrvalinu og þeim stöðum viljum við vekja athygli á í Edrúar.