Um okkur

Við erum Akkúrat, dótturfélag Tefélagsins, og litum dagsins ljós í lok árs 2020. Með Akkúrat höldum við áfram 0% vegferðinni okkar sem hófst þegar Copenhagen Sparkling Tea bættist við vöruúrval Tefélagsins - bragðgott og ferskt freyðite unnið úr lífrænu tei og vönduðu hráefni með það markmið að vera besti 0% drykkur í heimi.  
 
Viðtökurnar á Sparkling Tea vörunum fóru fram úr okkar björtustu vonum og sýndu svo ekki var um villst að markaðurinn fyrir 0% drykki er stærri en við héldum – og fer stækkandi. Akkúrat er því komið fram á sjónarsviðið með úrval af nýstárlegum (og kunnuglegum) 0% drykkjum frá metnaðarfullum framleiðendum sem hafa ástríðu fyrir að gera upplifun án áfengis bragðbetri og fjölbreyttari.  
 
Framsækni og gæði í framleiðslu 0% drykkja hefur aukist mikið á undanförnum árum í takt við lífsstíl og aðstæður nútímafólks. Hvort sem um er að ræða tímabundnar eða tilfallandi ástæður þess að fólk kýs 0% drykki eða hefur einfaldlega valið sér lífsstíl án áfengis, þá er engin ástæða til að gefa afslátt af ánægjulegri upplifun þegar kemur að því að velja góðan drykk fyrir skemmtileg tilefni, hvort sem það er heimsókn á frábæran veitingastað, drykkur eftir vinnu eða hittingur með góðum vinum. 
 

Ef við hugsum okkur 100 manna samkomu er óhætt að áætla að um 20% gesta kjósi að drekka ekki áfengi að staðaldri. Við það bætist fólk sem af einhverjum ástæðum (líkamsræktarmarkmið, vinna, viðkomandi er barnshafandi, á bíl eða vill einfaldlega vakna hress með börnunum morguninn eftir) velur að drekka ekki áfengi á viðburðinum. Við höfum sjálf orðið vör við að fólk er þreytt á að hafa bara val um sódavatn eða dísæta gosdrykki ef það kýs að drekka ekki áfengi. Þess vegna er mikilvægt að á drykkjarseðlinum séu 0% drykkirnir vel sýnilegir enda fæstir vanir því að boðið sé upp á spennandi drykki sem innihalda ekki áfengi. Á þennan hátt er ekki aðeins verið að skapa ánægðari hóp viðskiptavina, heldur þorum við að fullyrða að eftirspurnin eftir 0% drykkjum (þrátt fyrir að vera dýrari kostur en sódavatn eða gos) verður strax umtalsverð. Sódavatnið fær seint verðlaun fyrir að vera sérstaklega spennandi drykkur og bætir líklega afar litlu við upplifunina. Með því að bjóða upp á úrval af 0% drykkjum, ýmist samhliða áfengum drykkjum eða í sérhluta á seðlinum, er augljóst að þú vilt koma til móts við þarfir enn fleiri viðskiptavina. Góðir viðskiptahættir spyrjast út og þar er komin verðmæt auglýsing fyrir ykkar starfsemi. Á meðan glas af sódavatni er selt á um 500 krónur er góður 0% drykkur ef til vill á 1.200 krónur.  Og ef þú færð spennandi 0% drykk sem þér líkar, eru allar líkur á því að þú fáir þér annan og mælir með honum við fleiri sem kjósa að sleppa áfengi. Þannig má auðveldlega fá 200-400% meira í kassann.  


Við erum akkúrat í öllu því sem við tökum okkur fyrir hendur og bjóðum upp á persónulega þjónustu og vörur sem við höfum trú á. 0% menningin er að sækja í sig veðrið. Þar ætlum við að vera í fararbroddi og við viljum bjóða ykkur að slást í hópinn.  
 
Með hlýjum kveðju, Akkúrat  

Framkvæmdastjóri Akkúrat er Sólrún María Reginsdóttir
| hallo@akkurat.is | 5788320 | 6924858