Akkúrat opnar nýja vínbúð í Vesturbænum
Ný vínbúð tekur til starfa á Ásvallagötu í Reykjavík á morgun. Verslunin er um margt einstök þar sem þessi vínbúð er ekki rekin af ÁTVR og það sem meira er, allar vörurnar eru áfengislausir valkostir.
Opnun vínbúðarinnar kemur á besta tíma en framundan er hinn svokallaði Edrúar, þar sem margir staldra við og skoða áfengisvenjur sínar. Þannig er líka komið kjörið tækifæri til að kynna sér áfengislausa drykki og taka edrúaráskoruninni. „Okkur langar að bjóða fólki að koma til okkar, smakka, skoða og spjalla um 0% kokteila, vín, lífstíl og vörur,“ segir Sólrún Reginsdóttir eigandi vínbúðarinnar og framkvæmdastjóri Akkúrat, heildverslunar með áfengislausa drykki.
Sólrún segir eftirspurn eftir 0% drykkjum hafa aukist gífurlega á undanförnum misserum og sá ört stækkandi hópur sem velur að drekka ekki áfengi sætti sig ekki lengur við að velja á milli sódavatns eða sætra gosdrykkja í staðinn fyrir kokteila eða aðra spennandi drykki. Því vinnur Akkúrat meðal annars með fjölda veitingastaða við að byggja upp metnaðarfulla 0% drykkjarseðla. „Akkúrat er leiðandi í framboði á áfengislausum drykkjum á Íslandi og vínbúðinni á Ásvallagötu er ætlað að styðja við kynningu á vörum og framleiðendum.
Það er líka gaman að segja frá því að með vörum frá Akkúrat er hægt að blanda 95% af vinsælustu kokteilum í heimi, auk þess sem við erum með frábært úrval af freyðivíni, bjór, rósavíni og fleira. Við erum með yfir 50 vörutegundir frá tíu framleiðendum svo allir ættu að geta fundið 0% drykk við sitt hæfi. Við opnum á morgun, föstudag, og fyrst um sinn verðum við pop up verslun út febrúarmánuð. Við hlökkum mikið til að taka á móti viðskiptavinum og bjóða upp á allskonar viðburði, tilboð og skemmtilegheit,“ bætir Sólrún við.